Konan hans Sverris

„Í okkar sambandi var ég bæði eign og eigandi: Ég var Hildur hans Sverris og þú varst Sverrir hennar Hildar. Ég eignaði mér margt af þínu. Þín líðan var mín líðan, þín skömm mín, þitt líf mitt líf.“

Hildur er laus úr erfiðu hjónabandi og styrkur hennar eykst dag frá degi. Hún lítur til baka og hugsar um mynstrin sem við lærum svo rækilega að á endanum vefjast þau um háls okkar eins og níðþungir hlekkir.

Af hverju leyfði hún eiginmanninum, sem í byrjun minnti hana á grískt goð, að: hunsa hana í viku af því hún var glöð í partýi þegar honum fannst ekki gaman, segja henni að enginn annar myndi vilja hana og segja henni að hún væri geðveik? Af hverju beið hún svona lengi með að losa sig?

„Mér finnst ég vera að kafna og samtímis að detta í frjálsu falli niður í dimma botnlausa gjá. Þetta er örvænting, ekki ósvipuð þeirri sem ég fann fyrir á kvöldin sem barn, þegar hugurinn náði ekki utan um óendanleika geimsins eða um það hvernig það væri að týnast á botni úthafsins.“

 

Þetta er saga um ofbeldi og eftirsjá en einnig um þrautseigju og sátt. Konan hans Sverris er fyrsta skáldsaga höfundar.

Valgerður Ólafsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This